„Þeir eru að spila með refi sem eru með fullt af reynslu í landsliðum og í Evrópukeppni,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson eftir leik 33:28 sigur Vals gegn Motor frá Úkraínu í 32-liða úrslitum Evrópubikars karla í handbolta á Hlíðarenda í kvöld.
„Þeir voru góðir, með gott byrjunarlið en ekki mikla breidd. Þeir misstu alla sína útlendinga, eðlilega.
Ég er mjög sáttur með sigurinn í kvöld og mjög ánægður með sigurinn í síðustu viku, það var frábær sigur. Þegar ég legg báða leikina saman þá er ég bara mjög ánægður með þetta og skemmtilegt að vera komin áfram.
Við náðum að komast í fjögur mörk á þá og vorum aukalega fjögur eða fimm mörk yfir en þeir voru alltaf að minnka þetta í seinni hálfleik. Það var smá slen yfir seinni hálfleik á meðan að fyrri var aðeins faglegri.
Daníel Örn Guðmundsson skoraði tvö góð mörk í hans fyrsta Evrópuleik og svo var gaman fyrir sem flesta að taka þátt í þessu,“ sagði Óskar í viðtali við mbl.is eftir leik.
Valur er nú í 2. sæti í deildinni, þremur stigum á eftir FH.
„Við vorum smá daprir á móti Gróttu og ekki góðir á móti KA, það var þungt yfir æfingum og ýmislegt að ergja okkur. Þetta var ekki okkar tími, við vorum mjög sterkir í haust en svoleiðis er veturinn, það eru margir leikir en ég er mjög ánægður að við rifum okkur upp fyrir leikinn á móti þeim úti og erum á góðri leið núna.
Næsti leikir eru útileikir, fyrsti á móti Víkingi á föstudaginn svo FH og Aftureldingu. Það er mikilvægt að enda þetta vel fyrir pásuna,“ sagði Óskar.