Magnús Stefánsson, þjálfari ÍBV, var ekki ánægður með hvernig hans menn mættu til leiks gegn austurríska liðinu Krems í dag en liðið var 13:19 undir og átta mörkum undir í einvíginu þegar seinni hálfleikur hófst í dag. Frábær kafli ÍBV í upphafi síðari hálfleiks þar sem liðið komst í 22:19 og 23:20 dugði þó ekki til þar sem gestirnir voru sterkari á lokakaflanum og unnu einvígið 62:60.
„Við erum að gera okkur seka um að mæta ekki til leiks, mætum ekki nógu sterkt til leiks. Við höfum gert það áður í vetur og það er eitthvað sem við þjálfararnir þurfum að skoða, af hverju við erum ekki að ná að gíra liðið upp, af hverju tekur það 15 mínútur að kveikja á vélinni,“ sagði Magnús en hann var nokkuð fúll eftir leikinn þar sem það var klárlega möguleiki fyrir ÍBV að vinna þetta einvígi.
„Þetta er léttleikandi lið sem við erum að spila á móti, í fínu standi, það er gaman að eiga við þá og allt það, en við eigum að sýna heilt yfir betri leik heldur en við gerðum hér í dag.“
Einvígið var mjög kaflaskipt, í einvíginu skora Krems 10 mörk á fyrstu 30 mínútunum, 20 á næstu 30, svo 19 í fyrri hálfleik í dag, eftir það lokar ÍBV markinu fyrstu 11 mínúturnar í síðari hálfleik en fá á sig 13 síðustu 19.
„Þetta er akkúrat punkturinn sem við vorum að ræða inn í klefa áðan, er það nálgunin á verkefnið, er það æfingavikan og undirbúningurinn, er það róteringin í leiknum? Þetta er spurningin sem við þjálfararnir spyrjum okkur að og við þurfum að líta í eigin barm. Virkilega mikið hrós á strákana hvernig þeir komu inn í seinni hálfleikinn, þetta hefði klárlega geta dottið okkar megin, sem var frábært fyrir áhorfendur að fá þannig leik.“
Það var átta marka munur í hálfleik í dag í einvíginu, það voru ekki margir sem höfðu trú á því að Eyjamenn ættu möguleika á því að komast áfram en áttuðu sig fljótt á því að möguleikinn væri fyrir hendi þar sem byrjun ÍBV í seinni hálfleik var frábær, 9:0 kafli.
„Í gegnum tíðina hafa 5, 6, 7, 8 mörk undir aldrei verið nein svaka brekka fyrir okkur, við höfum saxað það niður áður og höfðum því mikla trú á þessu. Þegar þú veist hvað býr í liðinu og veist hve mikið þú ert að spila undir getu, þá er sanngjarnt að setjast niður í hálfleik og segja við strákana að við eigum 3 gíra inni, þá er auðveldara að koma til baka í svona leik.“
„Geggjuð stúkan í dag, sérstaklega í seinni hálfleik, það bættist aðeins í hana, fannst okkur, það heyrðist allavega meira í henni. Þetta er geggjað, við elskum að vera í spennuleikjum og allt það,“ sagði Magnús en síðustu 19 mínútur leiksins skora gestirnir 13 mörk, það má segja að vörnin hafi hrunið þá.
„Við fáum leiðinlegar tvær mínútur á okkur þarna, sem tók mómentið frá okkur, þetta eru klókir spilarar sem við erum að keppa við, miðjumaðurinn þeirra spilaði virkilega vel á móti okkar framliggjandi ÍBV vörn, það var reynslan hjá honum sem dróg þetta lið áfram hjá þeim.“
Magnús segist hafa séð marga leiki með liðinu fyrir einvígið og fékk hjálp frá þjálfara úr austurrísku deildinni í undirbúningnum.
„Við vorum búnir að sjá nokkra leiki hjá þeim og vissum nokkurn veginn hvað við vorum að fara út í, ég hafði verið í sambandi við Hannes Jón sem er þjálfari úti í austurrísku deildinni. Hann aðstoðaði mig við undirbúning fyrir leikinn og óvissuþættirnir voru ekki margir fyrir leikinn, þetta var mest spurning um okkur sjálfa, við þurftum að mæta og framkvæma en við vorum ekki á pari þar.“
Þjálfari Krems sagði í viðtali eftir leikinn að ÍBV væri um svona miðja deild í Austurríki, á sama stað og Krems er, hvar myndi Magnús staðsetja lið Krems innan íslensku deildarinnar?
„Það er kannski bara hrokinn í mér en mér finnst við vera með betra handboltalið en þeir, mér finnst við vera með betri leikmenn í öllum stöðum og betra handboltalið. Spurningin er um dagsformið, hvernig mætum við, erum við að hitta á daginn okkar eða ekki? Það er oft óstabílla hjá ungum leikmönnum heldur en þessum eldri og erfiðara fyrir þá að gíra sig upp í svona verkefni, það erum við að glíma við hjá okkur, enda heilt yfir með freka unga leikmenn. Ég held að þeir væru fyrir miðri deild í Olísdeildinni.“