Viktor Gísli Hallgrímsson og Orri Freyr Þorkelsson, landsliðsmenn í handknattleik, fóru fyrir liðum sínum í sterkum sigrum í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik í kvöld.
Viktor Gísli lék frábærlega í marki Nantes sem hafði betur gegn Rhein-Neckar Löwen, 32:25, í A-riðli.
Hann varði alls 15 skot og var með tæplega 38 prósenta markvörslu.
Arnór Snær Óskarsson og Ýmir Örn Gíslason komust ekki á blað hjá Löwen.
Nantes tryggði sér sigur í A-riðli með því að vinna í kvöld en bæði lið fara áfram í 16-liða úrslit með tíu stig.
Orri Freyr var þá markahæstur allra í 34:28-sigri Sporting á CSM Constanta í H-riðli.
Skoraði hann átta mörk úr jafnmörgum skotum.
Constanta vann riðilinn með níu stigum og Sporting kom þar á eftir með átta.
Í E-riðli hafði Elverum betur gegn Kadetten Schaffhausen, 31:27.
Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði fjögur mörk fyrir Kadetten.
Flensburg vann riðilinn en Kadettend fylgir þýska liðinu í 16-liða úrslit.
Loks hafði Hannover-Burgdorf betur gegn Gornik Zabrze, 31:29.
Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover, sem vann riðilinn og fer í 16-liða úrslit ásamt Zabrze.