Teitur í stuði, góð úrslit þriggja Íslendingaliða

Teitur Örn Einarsson skoraði sex mörk fyrir Flensburg í kvöld.
Teitur Örn Einarsson skoraði sex mörk fyrir Flensburg í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Teitur Örn Einarsson lét mikið að sér kveða með Flensburg í Evrópudeild karla í handknattleik í kvöld en þrjú Íslendingalið náðu góðum úrslitum í leikjunum sem hófust klukkan 17.45.

Teitur skoraði sex mörk fyrir Flensburg í yfirburðasigri þýska liðsins gegn Lovcen frá Króatíu, 42:19. Flensburg var þegar búið að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum og fékk tíu stig úr sex leikjum í E-riðli.

Stiven Tobar Valencia skoraði eitt mark fyrir Benfica frá Portúgal sem vann góðan útisigur gegn Kristianstad í Svíþjóð, 31:27. Þetta dugar skammt fyrir Benfica sem tapaði fjórum af sex leikjum sínum í A-riðli og er úr leik.

Tryggvi Þórisson skoraði ekki fyrir Sävehof frá Svíþjóð sem gerði jafntefli við Gorenje í Slóveníu, 28:28. Þetta er eina stigið sem Sävehof tapar í riðlinum en Svíarnir unnu hann með yfirburðum með 11 stigum af 12 mögulegum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert