„Ég er orðinn þriðja barnið þeirra“

Arnór Snær Óskarsson og Ýmir Örn Gíslason eru liðsfélagar hjá …
Arnór Snær Óskarsson og Ýmir Örn Gíslason eru liðsfélagar hjá Rhein-Neckar Löwen og þá voru þeir einnig liðsfélagar hjá Val á sínum tíma. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hann hefur bjargað mér algjörlega,“ sagði handknattleiksmaðurinn Arnór Snær Óskarsson í samtali við mbl.is en hann gekk til liðs við þýska stórliðið Rhein-Neckar Löwen í sumar frá uppeldisfélagi sínu Val.

Hjá Löwen hitti hann fyrir landsliðsmanninn Ými Örn Gíslason sem hefur komið sér vel fyrir í Rauenberg ásamt fjölskyldu sinni en Ýmir er giftur Margréti Vignisdóttur og saman eiga þau tvo stráka, Tristan Orra og Sigurð Högna.

„Ég hugsa að ég eyði 90% af tímanum mínum heima hjá þeim og þau eru mjög dugleg að elda fyrir mig. Ég er orðinn þriðja barnið þeirra og það er gott að geta talað íslensku inn á milli. Að hafa þau þarna úti líka hefur algjörlega bjargað mér,“ sagði Arnór.

Gott að hlusta á tónlist

Sjálfur býr Arnór í Heidelberg og það tekur hann því um 20 mínútur að keyra á æfingar.

„Ég er búinn að koma mér ágætlega fyrir inn í Heidelberg og við erum einhverjir sex til sjö leikmenn liðsins sem búum þar. Við spilum deildarleikinn í Mannheim og Evrópuleikina í Heidelberg þannig að það er fínt jafnvægi í þessu.

Mér finnst mjög þægilegt að fá þessar aukamínútur á daginn til þess að keyra á æfingar sem dæmi. Ég nýt tímann oftast í að hlusta á góða tónlist en ég get svo sem alveg viðurkennt það að það koma tímar, eftir erfiðar æfingar, þar sem ég væri alveg til í að vera bara kominn heim til mín eftir fimm mínútna keyrslu,“ sagði Arnór meðal annars í samtali við mbl.is.

Nánar er rætt við Arnór Snæ á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert