Íslendingarnir drjúgir í naumum töpum

Sigvaldi Björn Guðjónsson fagnar marki í leik með Kolstad.
Sigvaldi Björn Guðjónsson fagnar marki í leik með Kolstad. Ljósmynd/EHF

Sigvaldi Björn Guðjónsson, landsliðsmaður í handknattleik, átti góðan leik fyrir Noregsmeistara Kolstad þegar liðið mátti sætta sig við tap, 26:25, fyrir Þýskalandsmeisturum Kiel í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Sigvaldi Björn var jafn markahæstur í liði Kolstad með fimm mörk ásamt stórstjörnunni Sander Sagosen og Simen Ulstad Lyse.

Markahæstur í leiknum var hins vegar Svíinn Niclas Ekberg með átta mörk fyrir Kiel.

Kolstad var með forystu stærstan hluta leiksins en Kiel sneri taflinu við undir lokin og styrkti þannig stöðu sína á toppi A-riðils, þar sem þýska liðið er með 15 stig.

Kolstad er í fimmta sæti riðrilsins með 9 stig þegar bæði lið hafa leikið tíu leiki.

Annar landsliðsmaður, Haukur Þrastarson, var sömuleiðis í eldlínunni með liði sínu Kielce í riðlinum og mátt einnig sætta sig við naumt tap með sömu markatölu, 26:25.

Pólska liðið heimsótti þá ungverska liðið Pick Szeged og var Haukur á meðal markahæstu leikmanna í leiknum.

Skoraði hann fjögur mörk, en liðsfélagi hans Alex Dujshebaev var markahæstur í leiknum með sex mörk.

Kielce er áfram í þriðja sæti A-riðils með 12 stig eftir tíu leiki. Szeged kemur þar á eftir með 11 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert