FH vann Aftureldingu 32:29 í 11. umferð Íslandsmóts karla í handbolta að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld. Með sigrinum náði FH 5 stiga forskoti á Val á toppi deildarinnar, sem á tvo leiki til góða.
Leikurinn í kvöld var skemmtilegur áhorfs og skiptust liðin á að skora úr fyrstu sóknum sínum. Afturelding náði þá tveggja marka forskoti sem FH jafnaði síðan í stöðunni 5:5 og komust yfir í stöðunni 6:5. Það forskot missti FH aldrei af hendi og náðu þeir mest fjögurra marka forskoti í stöðunni 11:7.
Aron Pálmarsson átti stórleik í fyrri hálfleik og skoraði 10 mörk og gaf 3 stoðsendingar. Athygli vakti að Aron skoraði fyrstu 6 mörk FH í leiknum. Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði 7 mörk fyrir Aftureldingu í fyrri hálfleik.
Afturelding náði að vinna á fjögurra marka forskoti FH fyrir hálfleik og var staðan í hálfleik 17:15 fyrir FH.
Síðari hálfleikur var ekki verri en sá fyrri. Þeir Aron Pálmarsson hjá FH og Þorsteinn Leó Gunnarsson hjá Aftureldingu báru af í leiknum og skoruðu hvert markið á fætur öðru. FH leiddu allan síðari hálfleikinn og komust mest fjórum mörkum yfir.
Aftureldingu tókst að minnka muninn niður í eitt mark í stöðunni 22:23 en lengra komust þeir ekki og FH jók muninn aftur og landaði að lokum mikilvægum sigri í toppbaráttunni, 32:29.
Markahæstur í liði FH var Aron Pálmarsson með 15 mörk en hann átti auk þess 6 stoðsendingar. Daníel Freyr Andrésson varði 9 skot, þar af eitt vítaskot, í marki FH.
Í liði Aftureldingar var Þorsteinn Leó Gunnarsson með 12 mörk og varði Brynjar Vignir Sigurjónsson 9 skot og Jovan Kukobat 4 skot.