Framarar knúðu fram sigur á Gróttu í hörkuleik í úrvalsdeild karla í handknattleik á Seltjarnarnesi í kvöld, 30:28.
Fram er þá komið með 15 stig í fimmta sæti deildarinnar en Grótta er áfram með 8 stig í áttunda sætinu.
Grótta var með undirtökin í byrjun og komst í 6:3 en Framarar jöfnuðu fljótlega í 6:6. Eitt til tvö mörk skildu liðin að út fyrri hálfleikinn en Grótta var yfir, 17:16, að honum loknum.
Framarar skoruðu þrjú fyrstu mörk síðari hálfleiks og komust í 19:17 og síðan í 23:19. Munurinn hélst síðan tvö til fjögur mörk, Frömurum í hag, fram á lokamínúturnar.
Gróttu tókst að jafna í fyrsta sinn í hálfleiknum, 28:28, þegar þrjár mínútur voru eftir. Framarar svöruðu með tveimur mörkum, 30:28, og það urðu lokatölurnar.
Reynir Þór Stefánsson skoraði 8 mörk fyrir Fram, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 7 og Tryggvi Garðar Jónsson 6.
Ágúst Ingi Óskarsson skoraði 7 mörk fyrir Gróttu, Lúðvík Thorberg Arnkelsson 5 og Elvar Otri Hjálmarsson 4.