Dagur Gautason, leikmaður Arendal, hefur verið útnefndur í úrvalslið norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik fyrir nóvembermánuð, þriðja mánuðinn í röð.
Dagur, sem leikur í stöðu vinstri hornamanns, var einnig valinn í úrvalslið októbermánaðar og septembermánaðar.
Er hann eini leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar sem hefur afrekað það á tímabilinu.
Í nóvember skoraði Dagur 19 mörk fyrir Arendal og var með 76 prósent skotnýtingu.
Í umsögn á heimasíðu Norsk Topphåndball segir um Dag að hann sé svar karla við hinni leiftursnöggu hornakonu norska kvennalandsliðsins, Camillu Herrem.
Dagur er 23 ára gamall og uppalinn hjá KA á Akureyri. Hann samdi við Arendal í sumar og hefur því farið einstaklega vel af stað á sínu fyrsta tímabili sem atvinnumaður.