Íslandsmeistarar ÍBV lyftu sér upp í þriðja sæti úrvalsdeildar karla í handknattleik í kvöld með því að vinna stórsigur á Stjörnunni í Vestmannaeyjum, 39:26.
ÍBV er þá komið með 17 stig eftir 12 leiki en FH er með 21 stig og Valur 18 í tveimur efstu sætunum en Valsmenn eiga einn leik til góða.
Stjarnan situr hins vegar áfram í tíunda sæti deildarinnar með 7 stig, einu stigi fyrir ofan fallsæti.
Leikurinn var jafn fyrstu tíu mínúturnar en eftir að Eyjamenn skoruðu fimm mörk í röð og breyttu stöðunni í 10:6 sér í hag. Mest náðu þeir átta marka forskoti í fyrri hálfleiknum, 19:11, en Stjarnan skoraði tvö síðustu mörkin og staðan var 19:13 í hléi. Sigurður Dan Óskarsson átti samt mjög góðan leik í marki Garðbæinga í fyrri hálfleiknum.
Í seinni hálfleik varð munurinn fljótlega átta mörk á ný, 24:16, og Eyjamenn voru með öll tök á leiknum það sem eftir var. Tíu marka forskotinu var náð þegar tólf mínútur voru eftir, 30:20, og munurinn jókst enn eftir það.
Arnór Viðarsson skoraði sjö mörk fyrir Eyjamenn og Gauti Gunnarsson sex. Starri Friðriksson skoraði 10 mörk fyrir Stjörnuna og Hergeir Grímsson 6.