Númer eitt, tvö og þrjú hjá mér

Ýmir Örn Gíslason gengur til liðs við Göppingen næsta sumar.
Ýmir Örn Gíslason gengur til liðs við Göppingen næsta sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég fór á fund með forráðamönnum Göppingen fyrir nokkrum vikum síðan og skoðaði aðstæður hjá þeim,“ sagði Ýmir Örn Gíslason, landsliðsmaður Íslands í handknattleik og leikmaður Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi, í samtali við mbl.is.

Ýmir Örn, sem er 26 ára gamall, mun ganga til liðs við Göppingen næsta sumar þegar samningur hans við Rhein-Neckar Löwen rennur út.

„Þetta er stór klúbbur með mikla sögu og ég fann það líka hjá sjálfum mér að mig langaði í nýja áskorun og nýtt lið. Ég var stoltur og glaður þegar ég heyrði af áhuga Göppingen á mér og eftir að ég var búinn að skoða aðstæður hjá félaginu þá var þetta í raun aldrei spurning. Ég er í þessu til þess að spila handbolta og það hefur og verður alltaf númer eitt, tvö og þrjú hjá mér,“ sagði Ýmir.

Þakklátur fyrir tímann með Löwen

Ýmir gekk til liðs við Rhein-Neckar Löwen frá uppeldisfélagi sínu Val í febrúar árið 2020.

„Ég er mjög þakklátur fyrir tíma minn með Rhein-Neckar Löwen. Þetta hafa verið tæplega fjögur mjög góð ár. Fyrsta árið var frekar skrítið vegna kórónuveirufaraldursins en ég horfi mjög sáttur til baka. Auðvitað hefur þetta verið upp og niður eins og gengur og gerist í atvinnumennskunni en það er bara hluti af þessu.

Það sem stendur upp úr er bikarmeistaratitilinn sem við unnum í í apríl eftir sigur gegn Magdeburg í úrslitaleik í Köln fyrir framan 20.000 manns. Það var langt síðan félagið hafði síðast unnið bikar og það var magnað að vera hluti af þessu og sjá hversu mikla þýðingu þetta hafði fyrir stuðningsmennina og alla sem tengjast félaginu,“ sagði Ýmir í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert