Valsmenn styrktu stöðuna í öðru sæti úrvalsdeildar karla í handknattleik þegar þeir sigruðu Víkinga í Safamýri í kvöld, 27:21.
Valsmenn eru þá með 18 stig eftir 11 leiki, þremur stigum á eftir FH-ingum sem hafa leikið einum leik meira. Víkingar eru áfram í ellefta og næstneðsta sætinu með 6 stig.
Leikurinn var hnífjafn fyrstu 14 mínúturnar og að þeim liðnum var staðan 6:6 en í framhaldi af því áttu Víkingar góðan kafla og komust í 10:7. Valsmenn náðu að jafna í 13:13 en Víkingar skoruðu tvö síðustu mörk fyrri hálfleiks og voru yfir að honum loknum, 15:13.
Þeir héldu uppteknum hætti í byrjun síðari hálfleiks og staðan var 18:15 eftir fimm mínútur, Víkingum í hag. Þá tóku Valsmenn hins vegar kipp, skoruðu átta mörk gegn engu á 21 mínútu og staðan var því 23:18, þeim í hag, þegar fjórar mínútur voru eftir.
Víkingar náðu loksins að skora, löguðu stöðuna í 23:20, en nær komust þeir ekki og Valsmenn gerðu endanlega út um leikinn.
Þorfinnur Máni Björnsson skoraði 7 mörk fyrir Víking, Stefán Scheving Guðmundsson 4 og Sigurður Páll Matthíasson 3. Daníel Andri Valtýsson varði 15 skot og var með 41 prósent markvörslu.
Úlfar Páll Monsi Þórðarson og Benedikt Gunnar Óskarsson skoruðu 5 mörk hvor fyrir Val og Róbert Aron Hostert 4 mörk.