Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Hildigunnur Einarsdóttir leikur um þessar mundir á sínu fyrsta stórmóti í handknattleik, sautján árum eftir að hún lék fyrsta A-landsleikinn. Hildigunnur er 36 ára gömul og hefur því beðið lengi eftir slíku tækifæri en þess ber að geta að Ísland hefur ekki komist á stórmót kvenna frá því á EM 2012.
Ísland komst á EM 2010 og var það fyrsta lokakeppni stórmóts hjá kvennalandsliðinu. Árið eftir komst Ísland í 16-liða úrslit á HM í Brasilíu. Hildigunnur var meðal þeirra leikmanna sem komu til álita fyrir EM 2010 og 2012 en var ekki valin í lokahópinn. Hildigunnur leikur í miðri vörninni og á línunni í sókn en fyrir á bás á þeim tíma var Anna Úrsúla Guðmundsdóttir sem var einn öflugasti leikmaður liðsins.
Hildigunnur er nú í stóru hlutverki hjá landsliðinu á HM í Noregi og Danmörku og rauf á dögunum 100 landsleikja múrinn. Tekur hún sér frí frá störfum í lögreglunni á meðan en á árum áður lék Hildigunnur sem atvinnumaður. Hér heima leikur Hildigunnur með Val og hefur ekki leikið með öðru liði á Íslandi. Hún hefur spilað með félagsliðum í fjórum öðrum löndum. Með Tertnes í Noregi, Heid í Svíþjóð, Koblenz/Weibern, Leipzig, Dortmund og Leverkusen í Þýskalandi auk Hypo í Austurríki.
Myndin er tekin keppnistímabilið 2005-2006 eða 10. mars 2006. Sama ár og Hildigunnur lék fyrsta A-landsleikinn. Hildigunnur reynir að seiglast í gegnum vörn Stjörnunnar í deildarleik með Val en þrír öflugir varnarmenn gæta hennar. Anna Blöndal heldur utan um Hildigunni og þær Alina Petrache og Rakel Dögg Bragadóttir fylgjast með. Myndina tók Brynjar Gauti, sem myndaði lengi fyrir Morgunblaðið og mbl.is, í Laugardalshöllinni. Þar lék Valur heimaleikina á þessum árum á meðan framkvæmdir stóðu yfir á Hlíðarenda.