„Ég tel mig vera tilbúinn til þess að vera aðalþjálfari í dag,“ sagði Ólafur Stefánsson, fyrrverandi fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handknattleik og þjálfari þýska B-deildarfélagsins Aue, í samtali við mbl.is.
Ólafur tók við stjórnartaumunum hjá Aue um miðjan síðasta mánuð eftir eitt og hálft ár hjá Erlangen í þýsku 1. deildinni þar sem hann var aðstoðarþjálfari liðsins.
„Maður er að feta í fótspor vina sinna með þessu skrefi og ég get lært mikið af þeim. Ég fæ góðar ráðleggingar frá Degi [Sigurðssyni] sem er búinn að vera lengi í þjálfun. Hann hefur náð frábærum árangri með Japan og að koma þeim á Ólympíuleikana í Frakklandi næsta sumar er stórfrétt í rauninni og magnaður árangur,“ sagði Ólafur.
Hann sækir innblástur sinn til fyrrverandi liðsfélaga og þjálfara sem þjálfuðu hann á leikmannaferlinum.
„Við eigum marga mjög færa þjálfara í dag sem eru að gera mjög góða hluti. Gumma Gumm [Guðmundur Þórður Guðmundsson] hefur tekist að gera lið í neðri hlutanum í Danmörku að liði sem er komið í annað sætið og í baráttu um Evrópusæti. Alfreð Gíslason er í einu stærsta þjálfarastarfinu í dag og Aron Kristjánsson er að gera mjög gott mót hjá Barein þar sem þeir eru komnir í umspil um sæti á Ólympíuleikunum.
Svo er Guðjón Valur [Sigurðsson] að gera mjög góða hluti hjá Gummersbach, sem og Rúnar [Sigtryggsson] hjá Leipzig. Allir þessir menn eru góðar fyrirmyndir fyrir mig persónulega. Ég er að stíga mín fyrstu skref í þjálfun og það er gott, og ég er líka þakklátur fyrir það, að geta hringt í þessa menn og leitað ráða hjá þeim,“ sagði Ólafur í samtali við mbl.is.