Átján íslensk mörk í þýskum toppslag

Arnar Freyr Arnarsson skoraði fimm mörk fyrir Melsungen í dag.
Arnar Freyr Arnarsson skoraði fimm mörk fyrir Melsungen í dag. Ljósmynd/handball-bundesliga

Íslendingarnir í liðum Melsungen og Magdeburg skoruðu 18 mörk í stórleik liðanna í þýsku 1. deildinni í handknattleik í dag en þau skildu þá jöfn eftir mikla baráttu, 29:29, á heimavelli Melsungen í Kassel.

Ómar Ingi Magnússon skoraði níu mörk fyrir Magdeburg og Janus Daði Smárason fjögur en Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði ekki, enda nýkominn inn í hópinn á ný eftir fimm mánaða fjarveru.

Arnar Freyr Arnarsson skoraði fimm mörk fyrir Melsungen en Elvar Örn Jónsson lék ekki með liðinu vegna meiðsla.

Leikurinn var sveiflukenndur því Melsungen náði fimm marka forystu í fyrri hálfleik, 15:10, en þegar á leið leit út fyrir sigur Magdeburg sem komst í 26:23 og 28:26 á lokakaflanum. Melsungen átti hins vegar síðustu sóknina en mistókst að tryggja sér sigurinn.

Magdeburg er þar með eitt á toppi deildarinnar með 26 stig en Füchse Berlín er með 25 stig og á leik til góða. Flensburg er með 24 stig og Melsungen 23 í þriðja og fjórða  sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert