Hans Óttar Lindberg, Daninn íslenskættaði, náði ótrúlegum áfanga í dag með Füchse Berlín þegar liðið tók á móti Göppingen í þýska handboltanum.
Hornamaðurinn reyndi, sem á íslenska foreldra og er orðinn 42 ára gamall, varð í dag fyrstur til að skora 3.000 mörk í efstu deild Þýskalands en hann skoraði þrjú mörk fyrir liðið í leiknum sem endaði 29:29.
Hans Óttar hefur leikið í þýsku 1. deildinni frá árinu 2007. Fyrst með Hamburg í níu ár og er nú á sínu áttunda tímabili með Füchse Berlín.
Hann sló markamet deildarinnar í maí á þessu ári þegar hann skoraði sitt 2.906. mark í leik með liðinu gegn Minden. Fyrra metið átti Suður-Kóreumaðurinn Yoon Kyung-shin.
Þrátt fyrir að vera kominn vel á fimmtugsaldur er Hans Óttar enn meðal helstu markaskorara þýsku deildarinnar en hann er ellefti markahæstur af öllum í deildinni með 84 mörk í 15 leikjum.
Jafntefli Füchse og Göppingen í dag þýðir að Magdeburg og Füchse eru jöfn og efst á toppi deildarinnar með 26 stig hvort en Magdeburg gerði jafntefli við Melsungen fyrr í dag. Flensburg er með 23 stig og Melsungen 23 í næstu sætum.