Framlengdi í Danmörku

Einar Þorsteinn Ólafsson á landsliðsæfingu.
Einar Þorsteinn Ólafsson á landsliðsæfingu. mbl.is/Hákon Pálsson

Handknattleiksmaðurinn Einar Þorsteinn Ólafsson hefur skrifað undir nýjan samning við danska félagið Fredericia, þar sem Guðmundur Þ. Guðmundsson er þjálfari.

Einar Þorsteinn, sem er 22 ára gamall, gekk til liðs við Fredericia frá uppeldisfélaginu Val sumarið 2022 og skrifaði þá undir samning sem gilti til sumarsins 2024.

Með góðri frammistöðu hjá liðinu á yfirstandandi tímabili, þar sem Fredericia er í öðru sæti dönsku úrvalsdeildarinnar, hefur félagið ákveðið að launa honum með nýjum samningi sem gildir til sumarsins 2025.

Einar Þorsteinn lék á dögunum sína fyrstu A-landsleiki í vináttuleikjum gegn Færeyjum og er í 35-manna æfingahópi fyrir EM 2024 í Þýskalandi, sem hefst í janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert