Íslendingalið Arendal hélt góðu gengi sínu í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik karla áfram þegar liðið hafði betur gegn Halden, 33:30, á útivelli í kvöld. Á sama tíma unnu Noregsmeistarar Kolstad enn einn leikinn.
Vinstri hornamaðurinn Dagur Gautason, sem hefur verið útnefndur í lið mánaðarins í deildinni undanfarna þrjá mánuði, skoraði fjögur mörk fyrir Arendal í kvöld.
Liðsfélagi hans, Hafþór Már Vignisson, bætti við einu marki en Árni Bergur Sigurbergsson var ekki í leikmannahópnum.
Arendal hefur nú unnið sex leiki í röð í norsku úrvalsdeildinni og er komið upp í þriðja sæti, þar sem liðið er með 21 stig, tveimur á eftir toppliði Kolstad.
Kolstad fékk Bergen í heimsókn og vann auðveldlega, 38:30,
Hægri hornamaðurinn og landsliðsmaðurinn Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði þrjú mörk og gaf eina stoðsendingu í liði Kolstad.
Noregsmeistararnir hafa nú unnið níu deildarleiki í röð.