Afturelding gerði góða ferð austur fyrir fjall og lagði þar Selfoss, botnlið úrvalsdeildar karla í handknattleik, í 13. umferð deildarinnar í kvöld. Urðu lokatölur 33:28.
Afturelding hóf leikinn af gífurlegum krafti og var komið fimm mörkum yfir, 2:7, eftir tæplega sjö mínútna leik.
Eftir að Afturelding komst í 10:6 tóku heimamenn í Selfossi afskaplega vel við sér, minnkuðu muninn í 10:9 og jöfnuðu svo metin í 11:11.
Afturelding náði aftur tveggja marka forystu, 13:11, en í kjölfarið sneri Selfoss taflinu við og leiddi með tveimur mörkum, 15:17, í hálfleik.
Alexander Hrafnkelsson fór á kostum í marki Selfoss í fyrri hálfleik og varði tíu skot af þeim 16 sem hann fékk á sig. Stóð markvarsla Alexanders því í 62,5 prósentum í hálfleik.
Í síðari hálfleik byrjaði Afturelding betur og var fljótt búin að snúa taflinu við. Var staðan orðin 20:18 eftir 39 mínútna leik.
Það sem eftir lifði leiks var allt í járnum, eða allt þar til í blálokin þegar Afturelding sigldi fram úr og vann að lokum góðan fimm marka sigur.
Afturelding fór með sigrinum upp í þriðja sæti, þar sem liðið er með 17 stig líkt og Íslandsmeistarar ÍBV í fjórða sæti.
Mörk Selfoss: Gunnar Kári Bragason 6, Sveinn Andri Sveinsson 4, Einar Sverrisson 3, Tryggvi Sigurberg Traustason 3, Richard Sæþór Sigurðsson 3, Hannes Höskuldsson 3, Álvaro Mallols Fernández 2, Hans Jörgen Ólafsson 1, Sverrir Pálsson 1, Sæþór Atlason 1.
Varin skot: Alexander Hrafnkelsson 12, Vilius Rasimas 1, Jón Þórarinn Þorsteinsson 0.
Mörk Aftureldingar: Árni Bragi Eyjólfsson 7, Birkir Benediktsson 7, Ihor Kopyshynskyi 6, Þorsteinn Leó Gunnarsson 6, Þorvaldur Tryggvason 3, Blær Hinriksson 1, Stefán Magni Hjartarson 1, Böðvar Páll Ásgeirsson 1, Leó Snær Pétursson 1.
Varin skot: Brynjar Vignir Sigurjónsson 10, Jovan Kukobat 1.