FH vann toppslaginn

Aron Pálmarsson skýtur að marki Valsara.
Aron Pálmarsson skýtur að marki Valsara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mjög vel var mætt í Kaplakrika í kvöld þegar FH og Valur áttust við í toppslag úrvalsdeildar karla í handknattleik en leikurinn endaði með sigri FH 32:28. FH-ingar fara því með frábæra stöðu í deildinni í langt jólafrí.

Valur lék í kvöld án þeirra Magnúsar Óla Magnússonar, Róberts Aron Hostert og Aron Dags Pálssonar og sást það strax á leik Vals. FH náði fljótlega forystu í fyrri hálfleik og juku hana mest í 5 mörk en lengst af var FH með 3-4 marka forskot í fyrri hálfleik.

FH spilaði vel fyrstu 20 mínútur leiksins bæði í vörn og sókn. Hafnfirðingar náðu þá 5 marka forystu en þá kom kafli hjá FH þar sem þeir voru mistækir, aðallega í sóknarleiknum. Það náði Valur að notfæra sér og minnkuðu valsmenn muninn niður í tvö mörk í stöðunni 13:11 og 5 mínútur eftir af fyrri hálfleik.

Þá tók lið FH aftur við sér og jók muninn í 4 mörk í stöðunni 16:12. Valsmönnum tókst að minnka muninn í 3 mörk fyrir hálfleik með marki úr vítaskoti.

Það er lítið hægt að segja um leik Vals í fyrri hálfleik annað en að hann var mjög tilviljanakenndur og óskipulagður. Valsmenn áttu í miklum erfiðleikum með að ná góðu flæði í sóknarleik sinn og í vörninni fór allur fókus liðsins í að gæta Arons Pálmarssonar sem opnaði færi fyrir aðra leikmenn í FH.

Markahæstur í liði FH í fyrri hálfleik var Einar Bragi Aðalsteinsson með 4 mörk. Í liði Vals skoraði Benedikt Gunnar Óskarsson 5 mörk, öll úr vítaskotum.

Daníel Freyr Andrésson varði 6 skot fyrir FH í fyrri hálfleik líkt og Björgvin Páll Gústavsson í markinu hjá FH.

Hálfleikstölur í Kaplakrika 16:13 fyrir FH.

Valsmenn minnkuðu muninn niður í tvö mörk í byrjun síðari hálfleiks. Þá tók lið FH völdin á vellinum og jók muninn í mest 7 mörk. Lið FH var alltaf skrefi á undan Val í kvöld sem átti lítinn möguleika gegn fullskipuðu liði FH. Valsmönnum tókst nokkrum sinnum að minnka muninn en hafnfirðingar settu þá alltaf í næsta gír og juku muninn aftur.

FH vann að lokum sigur fjögurra marka sigur 32:28 eftir að hafa verið 7 mörkum yfir 32:25.

Markahæstir í liði FH voru þeir Aron Pálmarsson og Ásbjörn Friðriksson með 6 mörk hvor. Daníel Freyr varði 10 skot, þar af eitt vítaskot.

Í liði Vals skoraði Benedikt Gunnar Óskarsson 8 mörk, þar af 6 úr vítaskotum. Björgvin Páll varði 13 skot í markinu.

FH fer því í jólafrí á toppnum.

FH 32:28 Valur opna loka
60. mín. FH tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert