Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handknattleik, hefur skrifað undir nýjan samning við ungverska stórveldið Telekom Veszprém sem gildir til sumarsins 2026.
Bjarki Már gekk til liðs við Veszprém sumarið 2022 og vann tvöfalt, deild og bikar, á sínu fyrsta tímabili með liðinu í vor.
Hann er 33 ára gamall og hafði áður leikið með Lemgo, Füchse Berlín og Eisenach í Þýskalandi sem atvinnumaður.
Hér á landi lék Bjarki Már með uppeldisfélaginu Fylki, Selfossi og HK, þar sem hann varð Íslandsmeistari árið 2012.