Ásbjörn Friðriksson, leikmaður FH, átti góðan leik í gærkvöldi þegar liðið vann Val, 32:28, í toppslag úrvalsdeildar karla í handknattleik í Kaplakrika. Ásbjörn skoraði sex mörk, þar af fjögur úr vítaköstum.
Spurður hvort honum þætti FH langbesta liðið í deildinni núna sagði Ásbjörn við mbl.is:
„Við erum að spila á okkar heimavelli og það vantaði þrjá mjög góða hjá þeim þannig að mér fyndist full langt gengið að segja að við værum langbestir.
Við spiluðum heilsteyptan leik í dag og þeirra aðgerðir gengu ekki upp gegn okkur. Þeir reyndu að spila 7 á 6 og fóru í ýmislegt annað en við sýndum þroskaðan og agaðan leik með því að sjá við þeirra aðgerðum.“
Átti Valur einhvern tíma möguleika í þessum leik?
„Mér fannst þetta bara þróast þannig að við áttum auðveldara með að skora en mér fannst þeir alltaf vera í vandræðum í sókninni. Þannig að okkur leið vel allan leikinn,“ sagði hann.
Er þetta ekki frábær staða fyrir FH að fara inn í jólafrí meiðslalausir og á toppi deildarinnar?
„Jú, það er frábær staða. Núna þurfum við bara aðeins að laga hausinn eftir mikið álag undanfarið.
Síðan þarf bara að fara í útihlaup og lyfta um jólin áður en við förum aftur út á parketið til að undirbúa okkur fyrir leikina í febrúar,“ sagði Ásbjörn að lokum í samtali við mbl.is.