Komust of langt fram úr okkur

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals.
Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, var nokkuð brattur þrátt fyrir 32:28-tap fyrir FH í toppslag úrvalsdeildar karla í handknattleik í Kaplakrika í gærkvöldi.

Átti Valur aldrei möguleika í þessum leik?

„Jú, klárlega. Við misstum þá bara aðeins of langt fram úr okkur. Ef við hefðum haldið þeim í 2-4 mörkum frá okkur þá held ég að við hefðum getað unnið þá.

Það er erfitt að vinna upp svona mun á móti FH. FH er heitasta liðið í dag og þeir eru með fullskipað lið í kvöld á meðan okkur vantar 4 lykilmenn.

Við getum auðvitað afsakað okkur með því að okkur vanti sterka leikmenn og jú, það hafði auðvitað mikil áhrif á flæðið í okkar leik en þeir voru bara skrefi á undan okkur í kvöld,“ sagði Óskar Bjarni í samtali við mbl.is eftir leik.

Myndir þú segja að skýringin á tapinu sé þá að það vanti þessa lykilmenn í hópinn?

„Nei alls ekki. Okkur vantaði bara heilsteyptari spilamennsku og aðeins meiri gæði í bæði vörn og sókn.

Við eigum að geta unnið FH með þetta lið sem við erum með núna en við náðum ekki að kalla fram okkar besta leik í dag. FH voru bara betri í sínum aðgerðum í kvöld,“ bætti hann við.

Ef við skoðum þessa tvo leiki sem liðin hafa spilað gegn hvoru öðru í vetur, í hverju felst munurinn á leikjunum tveimur?

„Þeir leiddu leikinn á Hlíðarenda líka. Ég held að munurinn felist í að þeir komast of langt fram úr okkur í kvöld. Í stöðunni 28:24 þá förum við í 7 á 6 og það klikkaði.

Þá auka þeir muninn í staðinn fyrir að okkur takist að minnka hann niður í 2-3 mörk,“ sagði Óskar Bjarni að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert