Fram hafði betur gegn KA, 42:38, í ótrúlegum leik í úrvalsdeild karla í handbolta í Úlfarsárdal í kvöld.
Fram hefur nú unnið þrjá leiki í röð og er í fimmta sæti með 17 stig. KA hefur tapað þremur í röð og er í áttunda sæti með tíu.
Var mikið jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik og skiptust þau á að vera með litla forystu. Að lokum voru það Framarar sem voru yfir að honum loknum, 20:19.
Sama mynstur hélt áfram í seinni hálfleik og var áfram mikið skorað. Var allt hnífjafnt, 30:30, þegar hann var hálfnaður. Að lokum voru það hins vegar heimamenn sem voru sterkari á lokakaflanum og fögnuðu fjögurra marka sigri.
Mörk Fram: Ívar Logi Styrmisson 9, Rúnar Kárason 7, Reynir Þór Stefánsson 7, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 5, Eiður Rafn Valsson 4, Tryggvi Garðar Jónsson 4, Jóhann Karl Reynisson 4, Stefán Orri Arnalds 1, Dagur Fannar Möller 1.
Varin skot: Lárus Helgi Ólafsson 5, Arnór Máni Daðason 3.
Mörk KA: Einar Rafn Eiðsson 14, Skarphéðinn Ívar Einarsson 6, Ott Varik 5, Jóhann Geir Sævarsson 3, Patrekur Stefánsson 3, Jens Bragi Bergþórsson 2, Einar Birgir Stefánsson 2, Magnús Dagur Jónatansson 1, Ólafur Gústafsson 1, Hugi Einarsson 1.
Varin skot: Bruno Bernat 12, Nicolai Kristensen 5.