Víkingar töpuðu 40:22 í Vestmannaeyjum í dag er liðið mætti Íslandsmeisturum ÍBV í úrvalsdeild karla í handknattleik. Eyjamenn hefndu því fyrir tapið fyrr á tímabilinu í Safamýrinni þar sem Víkingar unnu mjög óvæntan sigur.
Víkingar kusu að dvelja ekki lengi í Vestmannaeyjum en Herjólfur lagðist að bryggju með þá innanborðs um 14:30 leytið og var farinn frá bryggju 17:00.
„Við vorum arfaslakir, sama hvort það var að hlaupa til baka eða fram, vörn eða sókn við vorum alls ekki góðir. ÍBV sýndi á sama tíma gæðin sem þeir hafa, það er ekki að ástæðulausu að þeir eru Íslandsmeistarar. Þeir voru miklu miklu betri en við,“ sagði Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkinga við mbl.is að leik loknum.
Telur Jón Gunnlaugur að það hafi truflað Víkinga hvernig þeir ferðuðust í leikinn?
„Herjólfi seinkaði um 45-50 mínútur, við mætum hérna einhverjum 50 mínútum fyrir leik. Ég held að það hafi truflað okkur jafn mikið og þá, ég held það sé ekkert sérstakt að fara inn í svona leik. Það er alveg hægt að segja það að ferðamátinn hafi truflað okkur en það var ekkert annað í boði fyrir okkur.“
Eyjamenn voru vel gíraðir í leikinn en þeir vildu hefna fyrir tapið í fyrri umferðinni.
„Að sjálfsögðu ætluðu þeir að svara fyrir það tap, við unnum þá mjög óvænt í fyrri umferðinni, þeir ætluðu að svara fyrir það og gerðu það heldur betur, þeir voru á öllum sviðum margfalt betri en við.“
Markmið Víkinga eru að halda liðinu í deildinni en þetta tap setur ekki strik í reikninginn. „ÍBV er ekki lið sem við reiknum með að vera í einhverri innbyrðisbaráttu við en þessi lið í kringum okkur skipta öllu máli og við verðum að vinna réttu leikina.“
Jón Gunnlaugur lítur sáttur yfir byrjun tímabilsins en nú kemur löng og góð pása sem liðin geta nýtt í að stilla strengi fyrir lokakaflann.
„Ég er bjartsýnn, við fáum liðsstyrk í febrúar þegar Stefán Huldar (Stefánsson), markvörður, kemur til okkar og þá verður Þorleifur (Rafn Aðalsteinsson) loksins orðinn klár vonandi. Við verðum sterkari eftir áramót heldur en fyrir áramót og ég vona að við höldum áfram að safna stigum.
Þetta er betra en ég bjóst við, við erum í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppni og um það að halda sæti okkar í deildinni. Ég get ekki verið vonsvikinn með það að fara í vetrarpásuna í bullandi séns.“