Stórleikur Viggós dugði ekki til í Íslendingaslag

Viggó Kristjánsson skoraði sjö mörk í dag.
Viggó Kristjánsson skoraði sjö mörk í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Viggó Kristjánsson lét afar vel að sér kveða þegar Íslendingalið Leipzig fékk annað Íslendingalið, Gummersbach, í heimsókn í þýsku 1. deildinni í handknattleik í dag. Lauk leiknum með sigri Gummersbach, 35:32.

Viggó skoraði sjö mörk fyrir Leipzig og gaf auk þess fjórar stoðsendingar. Var hann næstmarkahæstur í leiknum á eftir Dominik Mappes hjá Gummersbach, sem skoraði átta mörk.

Andri Már Rúnarsson komst ekki á blað hjá Leipzig, sem faðir hans, Rúnar Sigtryggsson, þjálfar.

Hjá Gummersbach, sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar, skoraði Elliði Snær Viðarsson tvö mörk.

Gummersbach fór með sigrinum upp í sjötta sæti, þar sem liðið er með 18 stig líkt og enn eitt Íslendingalið, Rhein-Neckar Löwen, sæti neðar.

Leipzig er í níunda sæti með 15 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka