Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, var ánægður með leik sinna manna í kvöld þegar Valur vann Aftureldingu 33:28 á Varmá í úrvalsdeild karla í handknattleik.
Talsverður munur var á á leik Valsmanna í samanburði við leik þeirra gegn FH fyrir helgi.
„Það var meiri orka og miklu betri spilamennska í mínu liði heldur en á móti FH. Það munar talsvert um að fá Róbert Aron og Aron Dag inn í liðið. Það gefur okkur miklu meira flæði, skiptingar og hraða í okkar leik, það er Valur. Við vorum í vandræðum á móti FH því við náðum aldrei takti og almennilegum hraða.
Á móti FH þá náðum við ekki góðum varnarleik sem þýddi að við náðum aldrei að keyra í bakið á þeim. Það tókst í kvöld og það er Valsleikur að keyra hratt í bakið á liðum eftir að þau hafa gert sóknarmistök. Það má samt hrósa Þorsteini Leó og Blæ, þeir eru ungir og lentu í reynslumiklum varnarmönnum eins og Alexander og Róberti.“
Þið farið í jólafríið þremur stigum á eftir FH og munurinn er ekki það mikill. Ég geri því ráð fyrir að Valur ætli sér að ná efsta sætinu eftir áramót?
„Það er nú þannig hjá félagi eins og Val að markmiðið er alltaf sigur og alltaf að enda á toppnum. Í kvöld settum við fókusinn bara á frammistöðuna því við erum búnir að vera lélegir í síðustu leikjum og það tókst að bæta úr því. Um leið og varnarleikurinn komst í gang þá var þetta aldrei spurning í mínum huga.“
Dagskráin er strembin í febrúar, ekki satt?
„Það verða sjö leikir hjá okkur í febrúar og líka hjá FH. Það er því mikil meiðslahætta hjá báðum þessum liðum þegar álagið er svona mikið þannig að við vitum aldrei hvað gerist en markmiðið er skýrt.“
En skiptir þessi deildakeppni einhverju máli? Er það ekki bara úrslitakeppnin sem er aðalatriðið?
„Nei, ég vill meina að deildakeppnin sé erfiðasti bikarinn. Það skiptir samt máli að fara inn í úrslitakeppnina á góðu skriði og þá þurfa allir að vera heilir. Úrslitakeppnin er auðvitað skemmtilegust en deildakeppnin er erfiðust og mér finnst að öll lið eigi að reyna vinna hana,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson.