Taflan lýgur ekki

Þorvaldur Tryggvason úr Aftureldingu reynri að komast framhjá Valsmanninum Tjörva …
Þorvaldur Tryggvason úr Aftureldingu reynri að komast framhjá Valsmanninum Tjörva Tý Gíslasyni í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar var ekki sáttur með frammistöðu sinna manna eftir fimm marka tap gegn Val að Varmá í úrvalsdeild karla í handknattleik í kvöld, 33:28.

Afturelding er 6 stigum frá toppsætinu og 3 stigum frá öðru sætinu.

Hver eru þín fyrstu viðbrögð eftir þennan tapleik?

„Maður er bara svekktur með frammistöðuna hjá okkur. Við gerum alltof mikið af einstaklingsmistökum. Við fáum mörg mörk í bakið. Valsmenn voru bara betri á öllum sviðum leiksins."

Afturelding fær á sig 33 mörk þrátt fyrir að Brynjar Vignir hafi varið 12 skot. Segir það ekki talsvert um varnarleik ykkar í kvöld?

„Brynjar var flottur í markinu. Þetta er ekki bara vörnin því þeir refsa okkur mikið eftir alltof mörg sóknarmistök og þeir keyrðu þá bara í bakið á okkur og við náðum ekkert að stilla upp vörn."

Þið fenguð góð tækifæri til að komast inn í leikinn, meðal annars þegar Valsmenn voru tveimur mönnum færri en það kom ekkert út úr því. Þurfa þínir leikmenn ekki góðan lestur frá þjálfaranum á eftir?

„Jú við erum bara á eftir þessum liðum eins og Val og FH. Núna þurfum við að nota jólafríið til að nálgast þessi lið aftur. Taflan lýgur ekki og við erum ekki að ná að keppa við þessi tvö lið. Þannig að við þurfum bara að nota fríið núna til að nálgast þessi lið aftur og sýna það eftir áramót að við eigum heima í toppbaráttunni með FH og Val," sagði Gunnar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka