Valsmenn í fríið í öðru sætinu

Blær Hinriksson reynir að komast í gegnum vörn Vals í …
Blær Hinriksson reynir að komast í gegnum vörn Vals í leiknum í kvöld en Aron Dagur Pálsson togar í hann. mbl.is/Kristinn Magnússon
Afturelding og Valur áttust við í úrvalsdeild karla í handknattleik á Varmá í Mosfellsbæ í kvöld og lauk leiknum með sigri Vals, 33:28.

Valsmenn fara því í jólafríið í öðru sæti deildarinnar með 20 stig, þremur stigum á eftir FH sem er í toppsætinu. Afturelding er í 4. sæti með 17 stig líkt og Fram sem er í því fimmta.

Leikurinn í kvöld var mjög jafn framan af og var munurinn aldrei meiri en tvö mörk fyrstu 25 mínútur leiksins. Afturelding skoraði fyrsta mark leiksins en Valur jafnaði strax í kjölfarið. Valur komst síðan yfir í stöðunni 3:2 og héldu Valsmenn 1-2 marka forystu þangað til að Afturelding jafnaði í stöðunni 10:10.

Afturelding komst síðan yfir 11:10 en þá settu Valsmenn í næsta gír og náðu þriggja marka forystu 16:13 og enduðu fyrri hálfleik á að komast í 19:15 og fóru liðin með þá stöðu í hálfleik.

Hálfleikstölur voru 19:15 fyrir Val eins og áður sagði.

Valsmenn juku muninn í fimm mörk í byrjun síðari hálfleiks en Mosfellingar svöruðu strax fyrir sig. Þannig hélt síðari hálfleikurinn áfram og voru Valsmenn alltaf skrefi á undan og héldu ágætu bili milli liðana allan leikinn.

Þegar lið Aftureldingar var í stöðu til að minnka muninn gerði það klaufaleg mistök eins og að fá á sig brottvísanir og missa boltann eftir klaufalegar sendingar. 

Valur náði mest sjö marka forystu í leiknum og átti Afturelding í raun aldrei möguleika í síðari hálfleik. Á tímabili voru Valsmenn tveimur mönnum færri en það náðu Mosfellingar ekki að notfæra sér. 

Lokatölur á Varmá voru 33:28 fyrir Val.

Markahæstur í liði Vals var Benedikt Gunnar Óskarsson með níu mörk, þar af tvö úr vítaskotum. Björgvin Páll Gústavsson varði 12 skot í marki Vals. 

Í liði Aftureldingar var það Þorsteinn Leó Gunnarsson sem var atkvæðamestur með sjö mörk og Brynjar Vignir Sigurjónsson varði 12 skot í markinu. 
Afturelding 28:33 Valur opna loka
60. mín. Blær Hinriksson (Afturelding) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka