Handknattleiksmaðurinn Atli Steinn Arnarsson, leikmaður HK, hefur verið úrskurðaður í tveggja leikja bann af aganefnd HSÍ fyrir atvik sem átti sér stað í leik liðsins gegn Gróttu á fimmtudaginn var.
Fékk Atli beint rautt spjald í leiknum fyrir „sérstaklega hættulega aðgerð“ að mati dómara leiksins. Aganefnd tók síðan við málinu og úrskurðaði Atla í bann.
Er um áfall fyrir HK að ræða, því Atli hefur leikið vel með liðinu í vetur. Missir hann af leikjum liðsins við KA og Aftureldingu í byrjun febrúar, en deildin í jóla- og áramótafríi fram að því.