Jafnaldrarnir með lóð en hann með prik

Einar Þorsteinn Ólafsson er á leiðinni á sitt fyrsta stórmót.
Einar Þorsteinn Ólafsson er á leiðinni á sitt fyrsta stórmót. mbl.is/Eyþór Árnason

Einar Þorsteinn Ólafsson er á leiðinni á sitt fyrsta stórmót í handbolta, en hann hefur leikið vel með Fredericia í Danmörku undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar.

Einar, sem er sérstaklega góður varnarmaður, lék aldrei með yngri landsliðum Íslands og er óhætt að segja að hann hafi sprungið seint út. Arnar Daði Arnarsson, sem þjálfaði hann í yngri flokkum hjá Val, lýsti Einari skemmtilega á X. 

„Saga Einars Þorsteins gæti verið hvatning fyrir marga yngri iðkendur. Á engan yngri landsleik að baki & var ekkert (að mínu viti) að pæla í því.

Lifði í núinu & bætti það sem hann þurfti að bæta. Meðan jafnaldrar hans voru með lóð var hann með prik,“ skrifaði Arnar Daði Arnarsson.

„Einar þurfti að hafa fyrir því að vinna fyrir hlutunum. Hann þurfti að vinna í sínum veikleikum. Hreyfifærni, líkamlegur styrkur o.s.frv. 

Hann var þolinmóður. Hann var ekki að stressa sig á því að vera ekki að spila upp fyrir sig og hvað þá að vera valinn í unglingalandslið,“ skrifaði hann einnig og hélt áfram:

„Ég mun nýta sögu þína til að hjálpa öðrum iðkendum að ná sínum markmiðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert