Fer í sitt þriðja lið í Frakklandi

Grétar Ari Guðjónsson varði áður mark Hauka.
Grétar Ari Guðjónsson varði áður mark Hauka. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Handknattleiksmarkvörðurinn Grétar Ari Guðjónsson skiptir um félag í franska handboltanum að þessu keppnistímabili loknu.

Grétar ver mark Séléstat í B-deildinni, eftir að hafa leikið með því eitt tímabil í 1. deildinni, 2022-23.

Hann hefur nú samið við Ivry frá París um að leika með liðinu á næsta tímabili en félagið skýrði frá því á heimasíðu sinni í kvöld, samkvæmt frétt handbolti.is.

Grétar er því á leið í sitt þriðja lið í Frakklandi en hann fór frá Haukum til Nice árið 2020. Hann hefur verið í stóru hlutverki hjá Séléstat sem er í þriðja sæti B-deildarinnar og gæti hæglega farið upp um deild.

Ivry er reyndar ekki öruggt með að leika í 1. deild á næsta tímabili því liðið er í tólfta sæti af sextán liðum og aðeins tveimur stigum fyrir ofan fallsæti. Darri Aronsson er í leikmannahópi Ivry en hefur verið lengi frá keppni vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert