Karlalandslið Sádi-Arabíu í handknattleik, sem Erlingur Richardsson þjálfar, vann í dag góðan sigur á Kína, 25:21, í leik um níunda sætið á Asíumótinu í Barein.
Kína var með undirtökin fyrri hluta fyrri hálfleiks og komst til að mynda þremur mörkum yfir, 6:9, áður en Sádi-Arabía náði að jafna metin í 9:9.
Undir lok fyrri hálfleiks reyndust lærisveinar Erlings svo ögn sterkari og voru tveimur mörkum yfir, 14:12, í hálfleik.
Í síðari hálfleik voru Sádar með yfirhöndina, komust mest sex mörkum yfir og unnu að lokum góðan fjögurra marka sigur. Níunda sætið á mótinu var þar með í höfn.
Síðar í dag mætast Barein, sem Aron Kristjánsson þjálfar, og Japan, sem Dagur Sigurðsson þjálfar, í undanúrslitum Asíumótsins.