Erlingur hættur með Sádi-Arabíu

Erlingur Birgir Richardsson stýrði ÍBV til Íslandsmeistaratitils síðastliðið vor.
Erlingur Birgir Richardsson stýrði ÍBV til Íslandsmeistaratitils síðastliðið vor. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Erlingur Birgir Richardsson hefur látið af störfum sem landsliðsþjálfari Sádi-Arabíu í handknattleik eftir tæplega hálfs árs starf.

„Já, það er rétt. Samningurinn var útrunninn. Krafan var eiginlega að þeir vildu að ég byggi þarna niður frá og ég hafði ekki áhuga á því,“ sagði Erlingur í samtali við mbl.is.

Hann tók við starfinu um miðjan ágúst síðastliðinn og stýrði Sádi-Arabíu á Asíumótinu í Katar í síðasta mánuði, þar sem liðið hafnaði í níunda sæti.

Þegar tilkynnt var um ráðningu Erlings kom fram að samningurinn væri til eins árs. Hvers vegna lætur hann þá af störfum nú?

„Það voru engin verkefni stór verkefni fram undan, ekki fyrr en 2027. Ólympíusambandið er eiginlega vinnuveitandinn og þeir semja alltaf til tveggja til þriggja mánaða.

Formlega hafði verið reiknað með árinu en svo er ekkert HM hjá þeim á næsta ári. Þá var þessu bara lokið,“ útskýrði Erlingur.

Spurður hvort hann vissi hvað tæki nú við hjá honum sagði Erlingur að lokum:

„Nei, nei. Nú er bara aðeins að anda sig í gegnum þetta. Svo sér maður hvað maður fer að gera, hvort það verður þjálfun eða eitthvað annað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert