Spilaði ólétt á heimsmeistaramótinu

Sandra Erlingsdóttir.
Sandra Erlingsdóttir. Ljósmynd/Jon Forberg

Handknattleikskonan Sandra Erlingsdóttir komst að því degi áður en hún hélt á sitt fyrsta stórmót með íslenska kvennalandsliðinu að hún væri barnshafandi en hún er í sambúð með Daníel Þór Ingasyni, leikmanni Balingen í þýsku 1. deildinni.

Sandra, sem er 25 ára gömul, er lykilmaður í landsliðinu og var meðal annars útnefnd handknattleikskona ársins 2023 hjá Handknattleikssambandi Íslands en hún er samningsbundin Metzingen í þýsku 1. deildinni þar sem hún er í lykilhlutverki.

Hún er uppalin hjá ÍBV en hefur einnig leikið með Val hér á landi, þar sem hún varð Íslands- og bikarmeistari árið 2019, en hún á að baki 32 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað 145 mörk.

Erfitt að plana fram í tímann

„Mér líður ótrúlega vel og eins og er margoft búið að segja við mig þá reyni ég nú bara að njóta þess þessa dagana og er auðvitað mjög þakklát fyrir það líka,“ sagði Sandra í samtali við Morgunblaðið.

„Þetta var vissulega óvænt en á sama tíma var þetta velkomið líka. Þegar þú ert atvinnumaður í handbolta er erfitt að plana langt fram í tímann en það mætti segja að þetta hafi verið draumatímasetning fyrir handboltakonu. Ég er sett 4. ágúst en það vill svo skemmtilega til að það er sunnudagur á Þjóðhátíð okkar Vestmannaeyinga. Vonandi verð ég bara búin að eiga áður svo ég þurfi ekki að hanga ein uppi í sófa og horfa á alla stemninguna í gegnum samfélagsmiðla í símanum mínum,“ sagði Sandra og hló.

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert