Lítið sem ekkert er að frétta af Degi Sigurðssyni sem átti að taka við króatíska karlalandsliðinu í handknattleik.
Dagur sagði samningi sínum upp sem þjálfari japanska landsliðsins þann 9. febrúar, sem kom forráðamönnum japanska sambandsins á óvart.
Átti samningur hans að renna út eftir Ólympíuleikana í sumar þar sem japanska liðið er meðal keppnisliða.
Eftir tilkynninguna var sagt að Dagur tæki við króatíska landsliðinu og að samkomulagið væri gott sem komið í höfn. Nú hefur hins vegar ekkert frést í tvær vikur.
Þýski handknattleiksvefurinn handball-world segir frá því að lítið sem ekkert sé að frétta í samningamálum. Miðilinn hefur leitað til bæði Dags og króatíska handknattleikssambandsins en að ekki orð fáist frá hvorugum aðila hver staðan sé.
Þá tekur vefurinn einnig fram að erfiðlega gangi að binda enda á starfslok Dags hjá japanska handknattleikssambandinu. Ekki getur hann ráðið sig hjá öðru landsliði á meðan staðan sé sú.
Króatía leikur í forkeppni Ólympíuleikana frá 14. til 17. mars ásamt Þýskalandi, Austurríki og Alsír. Tvö efstu liðin fara á Ólympíuleikana.