Selfyssingurinn Tinna Sigurrós Traustadóttir er nýliði í landsliðshóp Íslands fyrir tvo leiki gegn Svíþjóð í undankeppni EM í handknattleik.
Fyrri leikur liðanna er á Ásvöllum á miðvikudaginn kemur en sá síðari er út í Svíþjóð á laugardaginn.
Íslenska liðið er í góðri stöðu í J-riðli undankeppninnar en efstu tvö liðin fara beint á mótið, en einnig er möguleiki að komast í gegnum þriðja sætið.
Íslenska liðið er í öðru sæti riðilsins með fullt hús stiga, jafnmörg og Svíþjóð, eftir sigra á Færeyjum og Lúxemborg.
„Ég er spennt og stolt af því að vera komin hingað. Þetta er spennandi verkefni og hópurinn er stemmdur fyrir þessu.
Það er frábært að æfa með svona góðum leikmönnum. Að vera í landsliðinu hefur alltaf verið draumurinn. Því er frábært að vera komin hingað,“ sagði Tinna Sigurrós í samtali við mbl.is.
Tinna telur að leikirnir gegn Svíþjóð muni gefa íslenska liðinu mikið en sænska liðið er með þeim betri í heiminum og hafnaði í fjórða sæti á heimsmeistaramótinu í lok síðasta árs.
„Leikirnir eiga eftir að gefa okkur mjög mikið. Þessir leikir eru góður undirbúningur fyrir framhaldið. Við erum búnar að missa nokkra lykilmenn og erum að byggja upp nýja sókn.
Ég held að þetta verði góður undirbúningur fyrir komandi leiki.“
Eins og áður kom fram er Tinna nýliði í hópnum. Telur hún reynsluna mjög mikilvæga sama hvort hún spili eða ekki.
„Ég fæ mikið úr því að vera komin í hópinn, kynnast honum. Hvort sem ég spila eða ekki fæ ég mikla reynslu úr þessu. Það er gaman að vera komin inn í þetta.“
Tinna hefur slegið í gegn með Selfossi sem hefur unnið alla sína leiki í 1. deildinni og er liðið komið upp í þá efstu. Tinna hyggst sátt með tímabilið.
„Mjög gott tímabil. Hópurinn er frábær og við erum mjög spenntar fyrir því að fara að spila í efstu deild aftur,“ sagði Tinna að lokum.