Handknattleiksmaðurinn Haukur Ingi Hauksson hefur skrifað undir nýjan samning við uppeldisfélag sitt HK sem gildir til næstu rúmlega tveggja ára, sumarsins 2026.
Haukur Ingi er 19 ára leikstjórnandi og vinstri skytta sem hefur verið í stóru hlutverki á yfirstandandi tímabili, þar sem HK er í tíunda sæti af tólf liðum í úrvalsdeildinni, einu stigi fyrir ofan fallsæti.
„Það er frábært að Haukur Ingi semji áfram við okkur, hann hefur átt mjög góðar innkomur í vetur og við berum áfram miklar væntingar til hans.
Hann á eftir að verða lykilleikmaður í meistaraflokki HK næstu árin,“ segir Brynjar Valsteinsson, meðlimur í stjórn handknattleiksdeildar HK, í tilkynningu frá deildinni.