Þeir lentu í vandræðum

FH-ingurinn Jón Bjarni Ólafsson í baráttunni í kvöld.
FH-ingurinn Jón Bjarni Ólafsson í baráttunni í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Ásbjörn Friðriksson, reynsluboltinn í liði FH, var ánægður með frammistöðu sinna manna í kvöld þegar FH vann 11 marka sigur á Fram í 17. umferð Íslandsmótsins í handbolta.

Þetta var nokkuð þægilegur sigur hjá FH í kvöld, ekki satt?

„Já, það vantaði talsvert í þeirra lið og þegar við fórum að síga fram úr og þeir lentu í vandræðum með að verjast þá kláraðist leikurinn í raun. Við gerðum þetta bara nokkuð vel í kvöld fannst mér."

Það vantaði talsvert í þeirra lið en FH hvíldi líka lykilmenn eins og Aron Pálmarsson, Atla Stein Arnarsson og Símon Michael Guðjónsson að mestu í dag. Sýnir þessi leikur hversu mikil breidd er í FH liðinu?

„Já, hann gerði það. Við náðum að spila vel á mjög ungum strákum í lokin og við gátum rúllað miklu betur á hópnum heldur en þeir og það sást alveg þegar þeir byrja að skipta inn á að þá springur þetta hjá þeim.“

Næsti leikur er á móti Stjörnunni hér í Kaplakrika. Hvernig sérðu þann leik fyrir þér?

„Það verður hörkuleikur á laugardaginn og það var fínt að ná að rúlla vel á liðinu í kvöld fyrir þann leik. Þetta verður erfiður leikur og við gerðum jafntefli við þá í fyrri leiknum.

Stjarnan er búin að spila mjög vel undanfarið og markvörðurinn þeirra er í fantaformi. Við þurfum að taka þennan leik alvarlega og undirbúa okkur vel fyrir laugardaginn,“ sagði Ásbjörn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert