Maður leiksins í mögnuðum sigri

Gísli Þorgeir Kristjánsson var maður leiksins í sterkum sigri.
Gísli Þorgeir Kristjánsson var maður leiksins í sterkum sigri. Ljósmynd/Kristján Orri

Ríkjandi Evrópumeistararnir í Magdeburg unnu í kvöld magnaðan 29:28-heimasigur á Barcelona í stórleik í þrettándu og næstsíðustu umferð í Meistaradeild Evrópu í handbolta í Þýskalandi.

Var staðan 28:28 þegar Magdeburg lagði af stað í síðustu sókn leiksins. Úr henni skoraði Gísli Þorgeir Kristjánsson sigurmarkið og tryggði dramatískan sigur. 

Gísli Þorgeir var markahæstur hjá Magdeburg með sex mörk. Ómar Ingi Magnússon gerði fimm. Gísli var valinn maður leiksins af EHF í leikslok. Janus Daði Smárason skoraði eitt mark fyrir þýska liðið.

Liðin eru með 22 stig hvort og í tveimur efstu sætum riðilsins. Tvö efstu liðin fara beint í átta liða úrslit. Næstu fjögur fara í 1. umferð útsláttarkeppninnar.

Bjarki Már Elísson og samherjar hans hjá Veszprém eiga enn möguleika á að ná öðru sætinu eftir 37:31-útisigur á Montpellier frá Frakklandi. Bjarki komst ekki á blað í kvöld, en liðið er með 20 stig. Veszprém og Magdeburg mætast í lokaumferðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert