Grátlegt leikbann fyrir litlar sakir

Róbert Gunnarsson á hliðarlínunni í kvöld.
Róbert Gunnarsson á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

KA komst upp fyrir Gróttu í úrvalsdeild karla í handbolta í kvöld. Liðin léku á Akureyri í 17. umferð deildarinnar og vann KA, 32:28. Gróttumenn voru mjög sprækir og úrræðagóðir í fyrri hálfleik og leiddu í hálfleik 18:16. Taflið snérist í þeim síðari og því fór sem fór.

KA situr nú í 7. sæti deildarinnar með 14 stig og Grótta í 9. sæti með 13 stig.

Róbert Gunnarsson er þjálfari Gróttu og hann var spurður út í kaflaskiptan leik liðsins.

„Mér fannst við spila mjög flottan fyrri hálfleik, vorum að leysa vörnina hjá KA mjög vel og stóðum vörnina ágætlega. Það sem breytist í seinni hálfleiknum er að við klikkum á góðum færum. Mér fannst við vera að skapa okkur góð færi og leikmenn voru að gera það sem ég bað þá um. Þeir börðust eins og ljón allan leikinn og KA náttúrulega líka.

Ég er mjög stoltur af strákunum mínum. Stundum hitta menn ekki almennilega á daginn sinn. Því fer sem fer. Þetta er ekkert flóknara. Svo var náttúrulega grátlegt fyrir okkur að vera með mann í leikbanni fyrir litlar sakir. Það hefur vissulega áhrif á okkar leik og skipulag.“

Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Það má segja að upphafsmínúturnar í seinni hálfleik hafi gert útslagið í leiknum en þá skorið þið bara eitt mark á tólf mínútna kafla. KA breytti varnaruppstillingunni sinni og markvörðurinn þeirra fór að verja.

„Markvarslan kom hjá þeim í seinni hálfleik en við erum þá að klikka á nokkrum góðum færum. Mér fannst ekki vandamálið hjá okkur að skapa færin. Við bara nýttum þau ekki.“

Þú ert með marga unga og kvika leikmenn í röðum Gróttu. Er ekki gaman að vinna með svona hóp?

„Það er æðislegt. Mér finnst bara frábært að þjálfa þessa drengi. Þeir eru virkilega metnaðargjarnir og leggja allt í handboltann. Auðvitað viltu alltaf vinna enn ef menn gera það sem fyrir þá er lagt þótt uppskeran sé rýr þá get ég ekki verið fúll.“

Nú eru þrjár vikur í næsta leik. Hvað á að gera? Verður kannski frí í viku?

„Nei, nei“ segir Róbert og kímir. „Það verður eitthvað smá frí en svo er bara áframhaldandi vinna. Þeir sem hafa verið eitthvað tæpir eða meiddir fá nú tíma til að jafna sig almennilega.“

Lítur þú á þetta sem kærkomið hlé eða myndir þú vilja spila næsta leik sem fyrst?

„Sjálfur væri ég til í að hafa ekkert stopp núna. Mér finnst við vera á fínu róli. Þetta var hins vegar vitað fyrir mót þannig að það er ekki hægt að kvarta undan þessu,“ sagði Róbert að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert