Óvissa með meiðsli landsliðsmarkvarðarins

Viktor Gísli Hallgrímsson meiddist á föstudaginn.
Viktor Gísli Hallgrímsson meiddist á föstudaginn. AFP/Ina Fassbender

Viktor Gísli Hallgrímsson, landsliðsmarkvörður í handknattleik og leikmaður Nantes í frönsku 1. deildinni, meiddist á föstudaginn í leik liðsins gegn Dijon á heimavelli.

Viktor Gísli, sem er 23 ára gamall, varði alls ellefu skot í leiknum, sem lauk með stórsigri Nantes, 47:34.

Nantes fær nýjan markvörð

Markvörðurinn staðfesti í samtali við mbl.is í dag að hann myndi gangast undir frekari rannsóknir vegna meiðsla á olnboga síðar í dag, þar sem alvarleiki meiðslanna kæmi betur í ljós.

Í dag tilkynnti Nantes svo komu spænska markvarðarins Ignacio Biosca frá Veszprém í Ungverjalandi, en til stóð að Spánverjinn gengi til liðs við franska félagið næsta sumar.

Viktor Gísli Hallgrímsson er í 18-manna leikmannahópi karlalandsliðsins fyrir tvo vináttulandsleiki gegn Grikklandi sem fara fram ytra í næstu viku en óvíst er með þátttöku hans í leikjunum vegna meiðslanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert