„Ég sagði honum að hætta þessu fótboltarugli“

Þórsararnir Aron Einar Gunnarsson og Oddur Gretarsson.
Þórsararnir Aron Einar Gunnarsson og Oddur Gretarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Handboltamaðurinn Oddur Gretarsson er á heimleið eftir ellefu ár sem atvinnumaður í Þýskalandi en hann skrifaði í vikunni undir samning við uppeldisfélag sitt Þór á Akureyri.

Oddur, sem er 33 ára gamall, hélt út í atvinnumennsku árið 2013 og gekk til liðs við Emsdetten sem þá var nýliði í þýsku 1. deildinni.

Hann lék með Emsdetten í fjögur ár áður en hann gekk til liðs við Balingen þar sem hann hefur leikið allar götur síðan en félagið situr sem stendur í neðsta sæti 1. deildarinnar með 11 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti.

Skaut aðeins á landsliðsfyrirliðann

Oddur og Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, eru góðir félagar og þekkjast vel enda báðir uppaldir fyrir norðan en Aron Einar hefur verið orðaður við endurkomu til Akureyrar að undanförnu.

„Ég og Aron erum alltaf í góðu sambandi enda heyrumst við mjög reglulega, þeir Þórsarar sem eru á mínum aldri,“ sagði Oddur í samtali við mbl.is.

„Ég skaut aðeins á hann um daginn eftir að ég skrifaði undir við Þór. Ég sagði honum að hætta þessu fótboltarugli og taka bara fram klístrið í staðinn. Ég veit hvað hann getur í handbolta og hann gæti svo sannarlega hjálpað okkur mikið.

Hann gæti líka lengt íþróttaferilinn sinn umtalsvert, um tvö til þrjú ár, ef hann myndi leggja fótboltann til hliðar og einbeita sér bara að handboltanum,“ bætti Oddur við í léttum tón í samtali við mbl.is.

Ítarlegt viðtal við Odd má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka