Misstum taktinn í framlengingunni

Katla María Magnúsdóttir sækir að marki Stjörnunnar í kvöld.
Katla María Magnúsdóttir sækir að marki Stjörnunnar í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Harpa Valey Gylfadóttir leikmaður Selfoss var mjög svekkt með að liðinu hafi ekki tekist að vinna Stjörnuna í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í kvöld.

„Við vorum búnar að vinna alla leiki í öllum keppnum fram að þessu og það er ofboðslega svekkjandi að hafa ekki klárað þetta í kvöld." sagði Harpa við mbl.is spurð út í úrslitin í kvöld.

Liggur munurinn milli feigs og ófeigs í  að þið missið Kötlu Maríu meidda af velli í fyrri hálfleik?

„Það spilar klárlega inn í. Við erum í hörkuleik þegar hún dettur út en svo stigu bara aðrar upp og þetta var spennandi leikur allan tímann en ég er bara fyrst og fremst svekkt að við höfum ekki náð að klára þetta."

Ef þú ferð yfir leikinn, hvað er það sem verður ykkur að falli í kvöld?

„Ætli það sé ekki bara þegar við missum taktinn í framlengingunni. Þá förum við að henda boltanum og klúðra góðum færum."

Er það stress sem veldur því að þið missið taktinn?

„Já það spilar alveg inn í og við horfum á klukkuna og erum marki undir og það einhvern veginn tekur okkur úr takti."

„Nú er það bara að klára 1. deildina og hvað svo?

„Já það eru tveir leikir eftir þar og svo förum við í langt undirbúningstímabil frá 24 mars og mætum svo ferskar í Olís deildina eftir sumarfrí,“ sagði Harpa Valey i samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert