Stjarnan í úrslit eftir framlengda spennu

Helena Rut Örvarsdóttir úr Stjörnunni sækir að marki Selfoss í …
Helena Rut Örvarsdóttir úr Stjörnunni sækir að marki Selfoss í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjarnan og Selfoss áttust við í síðari undanúrslitaleik kvöldsins í bikarkeppni kvenna í handbolta í Laugardalshöllinni og lauk leiknum með sigri Stjörnunnar, 26:25.

Stjarnan mætir því Val í úrslitum í Höllinni á laugardaginn klukkan 13.30.

Stjarnan byrjaði leikinn betur og skoraði tvö fyrstu mörk leiksins. Selfosskonur vöknuðu þá til lífsins og skoruðu sitt fyrsta mark og náðu svo að jafna leikinn í stöðunni 3:3. Eftir það var jafnt á öllum tölum og komst hvorugt liðið meira en tveimur mörkum yfir. Selfoss náði fyrst forskoti í stöðunni 6:5. Eftir það leiddu Selfosskonur en Stjarnan var alltaf skammt undan.

Selfoss lenti í vandræðum eftir rúmlega 10 mínútur þegar Katla María Magnúsdóttir fékk sína aðra brottvísun. Selfoss tók í kjölfarið leikhlé til að endurskipuleggja varnarleik sinn. Eftir um 19 mínútur meiddist Katla María eftir að hafa lent mjög illa í einvígi við varnarmenn Stjörnunnar. Kalla þurfti til sjúkrabíl og var Katla María á endanum borin af velli. Blóðtaka fyrir Selfoss sem spilar deild neðar en Stjarnan.

En það var ekki að sjá á liðunum að þau spiluðu í sitthvorri deildinni og voru hálfleikstölur 12:12.

Markahæst í liði Stjörnunnar í fyrri hálfleik var Embla Steindórsdóttir með 3 mörk og varði Darija Zecevic 2 skot. Í liði Selfoss skoraði Katla María Magnúsdóttir 4 mörk í fyrri hálfleik og vörðu þær Cornelia Hermannsson og Ágústa Tanja Jóhannsdóttir sitthvor tvö skotin.

Það voru Selfosskonur sem mættu í síðari hálfleik með kassann úti og náðu aftur forskoti í sinni fyrstu sókn eftir hlé. Þær spiluðu á alls oddi þrátt fyrir að hafa misst eina af sínum bestu leikmönnum af velli meidda.

Eftir 41 mínútu í leiknum kemst Selfoss í þriggja marka forystu í stöðunni 19:16. Þá tók Stjarnan leikhlé. Það hefur eitthvað virkað því Stjörnunni tókst að minnka muninn í eitt mark í stöðunni 19:18 og 20:19.

Hanna Guðrún Hauksdóttir náði hinsvegar að jafna leikinn stuttu síðar og í kjölfarið unnu Stjörnukonur boltann og Vigdís Arna Hjartardóttir brunaði upp í hraðaupphlaup og kom Stjörnunni yfir í stöðunni 21:20.

Stjarnan náði að auka muninn í tvö mörk var þá eins og bensínið væri búið hjá Selfosskonum og tóku þær leikhlé í stöðunni 23:21 og 8 mínútur eftir af leiknum.

Með mikilli seiglu tókst Selfosskonum að jafna leikinn í stöðunni 23:23 og 26 sekúndur eftir. Stjarnan tók leikhlé og freistaði þess að stela farseðlinum í úrslitaleikinn en það tókst ekki og þurfti því að framlengja.

Stjarnan náði undirtökunum í framlengingunni og komust tveimur mörkum yfir. Þann mun náði Selfoss ekki að jafna þrátt fyrir nokkrar tilraunir og stóðu Stjörnukonur uppi sem sigurvegarar eftir æsispennandi leik. Lokatölur 26:25.

Markahæst í liði Stjörnunnar var Embla Steindórsdóttir með 7 mörk og varði Darija Zecevic 4 skot. Í liði Selfoss skoraði Perla Ruth Albertsdóttir 8 mörk, þar af 7 úr vítum og varði Cornelia Hermansson 7 skot, þar af eitt víti.

Stjarnan 26:25 Selfoss opna loka
70. mín. Darija Zecevic (Stjarnan) varði skot Selfoss fær innkast.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert