Landsliðskonan sköflungsbrotnaði

Katla María í baráttunni í leiknum í gærkvöldi.
Katla María í baráttunni í leiknum í gærkvöldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katla María Magnúsdóttir, landsliðskona í handknattleik, varð fyrir því óláni að sköflungsbrotna í leik með liði sínu Selfossi í undanúrslitum bikarkeppninnar í Laugardalshöll í gærkvöldi.

Katla María lá sárþjáð eftir að hún lenti illa í kjölfar þess að hafa reynt skot í undanúrslitaleiknum gegn Stjörnunni, sem Stjarnan vann að lokum 26:25 eftir framlengingu.

Alvarlega meidd

Hún var flutt með sjúkrabíl á sjúkrahús og gengst undir frekari rannsóknir í dag.

„Hún er ennþá í rannsóknum en það er alveg ljóst að meiðslin eru alvarleg. Hún er að minnsta kosti með brot í sköflungnum.

Það er staðan en á sama tíma er óvissa og verið að bíða eftir einhverjum niðurstöðum,“ sagði Eyþór Lárusson, þjálfari Selfoss, í samtali við mbl.is.

„Þetta er eitthvað sem sést ekki í röntgen sem þarf að segulóma og eitthvað sem ég skil ekki alveg. Hún er bara uppi á spítala,“ bætti hann við.

Ekki er ljóst hve lengi Katla María verður frá vegna meiðslanna en þó liggur fyrir að hennar bíður að minnsta kosti nokkurra mánaða fjarvera. Tímabili stórskyttunnar er því lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert