Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Bikarúrslitaleikirnir í handknattleik fara fram í Laugardalshöllinni í dag þegar Valur og Stjarnan mætast í kvennaflokki en Valur og ÍBV í karlaflokki.
Meðfylgjandi mynd er tekin í bikarúrslitaleik karla árið 1992 þegar gömlu handboltastórveldin FH og Valur áttust við. Hafði FH betur 25:20 en FH-liðið var illviðráðanlegt eftir að það endurheimti Kristján Arason úr atvinnumennsku. Var Kristján spilandi þjálfari eftir heimkomuna frá Spáni.
Kristján er einmitt á myndinni og reynir að stöðva Valsarann Geir Sveinsson sem nær skoti á markið. Myndina tók Sverrir Vilhelmsson sem myndaði fyrir Morgunblaðið í áratugi.
Geir Sveinsson og Kristján Arason eru í hópi farsælustu landsliðsmanna Íslands í íþróttinni eins og handboltaáhugamenn þekkja. Báðir þeim kostum prýddir að vera framúrskarandi í bæði vörn og sókn. Ferli þeirra verða ekki gerð tæmandi skil í grein sem þessari en hér er stiklað á stóru.
Geir lék með landsliðinu frá 1984 til 1999. Lék hann alls 340 A-landsleiki og skoraði 502 mörk. Er hann sá þriðji leikjahæsti frá upphafi. Geir var í lykilhlutverki þegar Ísland lék um verðlaun á Ólympíuleikunum í Barcelona og var fyrirliði þegar Ísland náði sínum besta árangri á HM sem er 5. sæti í Japan 1997. Geir var valinn í úrvalslið mótsins eftir HM 1995.
Hann lék með Val, spænsku liðunum Granollers og Avidesa, Montpellier í Frakklandi og Wuppertal í Þýskalandi. Geir hefur þjálfað íslenska karlalandsliðið, Val, Gróttu, Akureyri, Bregenz í Austurríki og Magdeburg og Nordhorn í Þýskalandi.
Geir hlaut sæmdarheitið Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna árið 1997.
Kristján var á meðal bestu leikmanna heims á níunda áratugnum og hafnaði í 4. sæti í slíku kjöri hjá IHF árið 1989. Hann er fyrsti Íslendingurinn sem valinn var í heimsliðið í íþróttinni. Kristján var lykilmaður í landsliðinu þegar Ísland hafnaði í 6. sæti á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984 og HM í Sviss 1986 þar sem hann varð fimmti markahæsti leikmaður mótsins þótt hann missti af síðasta leiknum. Kristján varð fyrstur til að skora þúsund mörk fyrir A-landsliðið en alls skoraði hann 1.123 mörk í 245 leikjum.
Kristján lék með FH hér heima og með þýsku liðunum Hameln og Gummersbach og Teka Santander á Spáni. Kristján hefur þjálfað FH en einnig Dormagen og Wallau/Massenheim í Þýskalandi.
Kristján var níu ár í röð á meðal tíu efstu í kjörinu á Íþróttamanni ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna og hafnaði tvívegis í 2. sæti.