Arnór Snær Óskarsson, leikmaður Gummersbach í Þýskalandi, hefur verið kallaður inn í íslenska landsliðshópinn í handknattleik.
Hann kemur í staðinn fyrir Teit Örn Einarsson, leikmann Flensburg, sem hefur dregið sig út úr hópnum vegna meiðsla.
Þar með verða báðir synir Óskars Bjarna Óskarssonar, þjálfara Vals, í liðinu sem mætir Grikkjum í vináttuleikjum á föstudag og laugardag en Benedikt Gunnar var kallaður inn í hópinn í gær í staðinn fyrir Þorstein Leó Gunnarsson.
Íslenska liðið fór til Grikklands í dag og dvelur þar við æfingar, auk leikjanna, til sunnudags.