Kristján Örn Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik, hefur skrifað undir samning við danska úrvalsdeildarfélagið Skanderborg AGF.
Samningurinn gildir í tvö ár, til sumarsins 2026, og gengur Kristján Örn, eða Donni eins og hann er ávallt kallaður, í raðir danska félagsins frá franska félaginu Aix í sumar þegar samningur hans í Frakklandi rennur út.
Donni er 26 ára gömul hægri skytta og er þekktur fyrir sín þrumuskot.
„Ég hlakka mikið til að upplifa danska handboltamenningu og verða hluti af þessu verkefni hjá SAH á komandi árum. Það verður líka mjög spennandi að flytja til Árósa og fá að kynnast borginni.
Hvað handboltann varðar vil ég axla mikla ábyrgð og get vonandi lagt mitt af mörkum með því að vera góður leiðtogi og fyrirmynd fyrir liðsfélaga mína.
Ég mun vitanlega gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að ná í góð úrslit á vellinum ásamt liðsfélögum mínum,“ sagði Donni í samtali við heimasíðu Skanderborg AGF.