Danski handknattleiksmaðurinn Mikkel Hansen ætlar að leggja skóna á hilluna í sumar að yfirstandandi tímabili loknu.
Það er danski miðillinn TV2 sem greinir frá þessu en Hansen, sem er 36 ára gamall, hefur verið á meðal bestu handboltamanna heims undanfarinn áratug.
Stórskyttan er samningsbundin Aalborg í heimalandi sínu en hann hefur einnig leikið með GOG, Barcelona, AG Köbenhavn og París SG á ferlinum.
Þá á hann að baki 266 landsleiki fyrir Danmörku en hann hefur einu sinni orðið Evrópumeistari með Dönum, einu sinni Ólympíumeistari og þrívegis heimsmeistari.
Aalborg hefur boðað til blaðamannafundar á morgun klukkan 11:30 að íslenskum tíma þar sem Hansen mun tilkynna ákvörðun sína að því er TV2 greinir frá.